Thursday, June 10, 2010

Mojito múffur


Múffur
½ bolli mjólk
½ bolli rjómi
1 teskeið dökkt romm (má sleppa)
½ teskeið vanilludropar
3 bollar hveiti
1 teskeið lyftiduft
½ teskeið matarsódi
1 teskeið salt
1 bolli mjúkt smjör
2 bollar sykur
4 egg

Aðferð
Blandið saman mjólk, rjóma og vanilludropum í skál. Blandið saman þurrefnum, hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti og sigtið saman í skál. Hrærið saman smjör og sykur í hrærivél í um 4-5 mínútur þar til blandan er orðin létt og ljós. Bætið eggjunum saman við einu í einu og hrærið á lágum snúning.
Takið þá skálina með þurrefnunum og bætið 1/3 af þurrefnablöndunni út í hrærivélina og blandið varlega saman við. Bætið því næst helmingnum af mjólkur-rjóma blöndunni saman við.
Blandið svona saman sitt á hvað þurrefnunum og mjólkurblöndunni þar til allt er komið saman og blandan vel unnin. Setjið þá næst deigið í möffinsform. Hitið ofninn í 180°C og bakið í ca. 15-20 mínútur. Til þess að sjá hvort múffurnar er tilbúnar er gott að stinga prjóni í miðju kökunnar, ef ekkert deig loðir við prjóninn þegar þú dregur hann upp er kakan tilbúin.
Annars má baka þær í 5 mínútur til viðbótar. Takið múffurnar úr ofninum og leyfið þeim að kólna í 5 mínútur. Takið því næst romm sýrópið og látið drjúpa ofan á múffurnar svo þær dragi í sig safann. Þegar múffurnar hafa kólnað alveg má setja frosting kremið á.

Romm sýróp
1 bolli sykur
¼ bolli vatn
¼ bolli smjör
¼ bolli dökkt romm (má sleppa eða nota minna)
Fínrifinn börkur af 2-3 lime ávöxtum
Fínsöxuð mynta (ég gerði bara eitthvað random magn!)


Aðferð
Takið fram lítinn pott, setjið sykur, vatn og smjör í pottinn og bræðið við meðalháan hita. Náið upp suðu og hrærið stöðugt í blöndunni. Um leið og smjörið og sykurinn hefur bráðnað og blandast vel saman má taka pottinn af hellunni. Bætið romminu varlega saman við og því næst niðurrifna lime-berkinum og myntunni. Leyfið sýrópinu að standa í 5 mínútur áður en því er hellt yfir múffurnar (ég dýfði mínum bara ofan í sýrópið).

Lime, myntu & romm frosting krem
500 gr mjúkur rjómaostur (ég notaði 400g)
¾ bolli smjör
1 bolli flórsykur (ég notaði örugglega 2-3 bolla, best að smakka bara til)
2 teskeiðar dökkt romm (má sleppa)
1/2 teskeið vanilludropar
Fínrifinn börkur af 3 lime ávöxtum
Fínsöxuð mynta eftir smekk

Aðferð
Hrærið rjómaostinn og smjörið vel saman í um 5 mínútur. Bætið svo flórsykrinum við og hrærið þar til blandan verður létt og ljós. Bætið því næst romminu saman við ásamt vanilludropunum, lime berkinum og myntunni og blandið vel saman. Munið svo að setja kökukremið ekki á fyrr en múffurnar hafa fengið að kólna. Svo er um að gera leyfa hugmyndafluginu að njóta sín við að skreyta múffurnar og er tilvalið að nota niðurskorin myntulauf og lime svo þær verði sumarlegar og sætar. Verði ykkur að góðu.
Athugið: Þessi uppskrift dugar í 30 (ca 50 hjá mér!) litlar mini-múffur eða 10-12 stórar. Múffur með kökukremi ætti að geyma í ísskáp annars má geyma þær við stofuhita svo lengi sem þeim er pakkað vel inn.



-Valborg

Thursday, May 13, 2010

Nammikaka

Botn

3 eggjahvítur
1 tsk vanillusykur
3/4 bolli sykur
Stífþeyta þetta saman

svo 1 tsk lyftiduft þegar búið er að stífþeyta

síðast bætt út í og hrært með sleif (1 bolli = 2,5 dl)
125 gr suðusúkkulaði
1 bolli ritzkex - mulið
1/2 bolli salthnetur
3/4 bolli döðlur

Baka við 185°C í ca 20-25 mín
kæla kökuna aðeins áður en kremið er sett á

Krem

100 gr smjör og 100 gr suðusúkkulaði (brætt saman)
gott að þeyta restina saman við með handþeytara til að losna við flórsykurskekkina
60 gr flórsykur
3 eggjarauður

Hafdís :)

Tuesday, March 16, 2010

Orku-hafraklattar Hafdísar

Ég bolla en það á að vera held ég 2,5 dl
Fyrst blanda ég saman:

1 bolli spelt
3/4 bolli haframjöl
1/4 bolli múslí (granóla) - má sleppa
1/2 tsk kanill
1 tsk lyftiduft
3 tsk hrásykur (svolítið frjálst)

svo
1 msk Agaves sýróp
3 msk jurtaolía
1 egg

svo set ég eiginlega bara það sem er til í skápnum, samt möst að hafa einhverskonar þurrkaða ávexti og einhverjar hnetur. Það væri líka hægt að setja súkkulaði bita.
1/3-1/2 bolli rúsínur
1/4 bolli möndlur (saxaðar)
1/4 bolli hnetur (saxaðar)
1/4 bolli sesamfræ

Öllu hrært saman og ef þetta er of þurrt má bæta við 2-3 msk léttmjólk
Stærðin á kökunum getur verið litlar smákökur eða eins og hafrakökur í bakaríum.
Ég baka þær við 150°C í 25-30 mín og fæ þær stökkar en það er líka hægt að baka þær við 180°C í 15-20 mín.

Þetta eru ótrúlega hollir og orku miklir hafra klattar :)
Hafdís






Grænmetislasagne

Fyrir 6 manns

Sósa:
1 msk. ólífuolía
1 laukur, saxaður
1-2 hvítlauksrif, söxuð
4 msk tómatmauk (puré)
1 dós niðursoðnir tómatar
1 tsk oregano
1 tsk rósmarín
3 dl vatn
grænmetið er sirka 200 gr:
blómkál
brokkolí
kúrbítur (ég notaði avocado)
(líka hægt að nota sveppi)
200 gr niðursoðnar kjúklingabaunir
1 pakki grænt lasagne (ég notaði eggjalasagne hjá ykkur)
500 gr kotasæla

Aðferð:
Byrjið á að laga sósuna. Svitið saman lauk og hvítlauk og bætið síðan tómatmaukinu út í ásamt oregano og rósmarín. Bætið niðursoðnum tómötum saman við ásamt vatni og látið sjóða við vægan hita í 10-15 mínútur. Steikið grænmetið á pönnu í olíu og blandið í sósuna ásamt kjúklingabaunum. Látið sjóða í 2-3 mínútur.
Síðan er öllu raðað saman á eftirfarandi hátt:
Kotasæla
rifinn gratínostur
lasagneplötur
grænmetisblanda
lasagneplötur
kotasæla
rifinn gratínostur
grænmetisblanda
lasagneplötur
kotasæla
rifinn gratínostur
grænmetisblanda
Setjið síðan konfekttómata ofan á og ost ef þið viljið og bakið við 180°C í 30-40 mín

Það fer svo eftir fatinu sem þið setjið þetta í hversu mörg lög þið náið að gera. Held að aðalatriðið sé að grænmetisblandan sé efst og kotasælan neðst.

Verði ykkur að góðu
Hafdís :)

Hvítlauksbrauðið góða

Ég gerði helminginn af þessari uppskrift fyrir ykkur

1 kg hveiti
21 gr. þurrger
30 gr. sykur
30 gr. salt
625 ml volgt vatn
4-5 marin hvítlauksrif
nokkrir rósmarín stönglar
2 dl ólífuolía

Lýsing:
Byrjað á því að búa til olíuna, hvítlaukurinn og rósmarínstönglarnir settir út í ólífuolíuna og látið standa.
Ger og sykur er leyst upp í helmingi af vatninu. Hveiti og salti blandað saman og því næst er gerblöndunni bætt útí. Afgangurinn af vatninu er svo sett út í þar til deigið er frekar blautt. Deigið er látið hefast í um 1 klst. Næst er deiginu skipt í tvennt og flett út og sett á tvær ofnplötur. Olíunni er svo penslað á og grófu salti stráð yfir og þannig látið hefast aftur í 30-60 mín. Ég skar svo smá í deigið og myndaði bita svo auðveldara væri að skera það eftir á. Svo er það bakað í ofni við 250°C í um 15 mínútur.
Það fer alveg eftir ofn og hvort notaður er blástur hve lengi þarf að baka, bara að fylgjast með brauðinu þannig að það verði gullinbrúnt :)

Ég vil að við skrifum undir hver sé að setja inn uppskriftirnar svona til gamans :)

Hafdís

Thursday, March 11, 2010

Risotto

Hér er gróf þýðing af uppskriftinni sem ég notaði, plús það sem ég bætti við. Hér er upprunalega uppskriftin
http://www.taste.com.au/recipes/22316/baked+mushroom+risotto



Innihald
3 cups grænmetissoð (grænmetiskraftur soðinn í vatni)
50 smjör
400 sveppir
1 laukur
2-3 hvítlauksrif, kramin í hvítlaukspressu
2 cups arborio hrísgrjón
1/2 cup þurrt hvítvín (ég gleymdi að kaupa hvítvín svo ég setti bara eina teskeið af hrísgrjónaediki út í, mamma sagði að það væri líka hægt að nota smá sítrónusafa og örugglega líka bara hvítt borðedik)
1/3 cup parmesan ostur
1/3 cup graslaukur eða vorlaukur, saxaður
500 g kjúklingalundir, skornar í litla bita

Method
Hitið ofninn í 180°C (eða 160°C blásturs). Leysið grænmetiskraftsteninga upp í 1 L af vatni í potti, náið upp suðu og lækkið þá hitann. Látið haldast heitt á hellunni þangað til síðar.

Snöggsteikið kjúklingabitana þannig að þeir lokist, geymið svo á diski.

Bræðið helminginn af smjörinu og steikið sveppina í 3-4 mínútur á háum hita, færið svo á disk. Lækkið hitann í medium, steikið lauk og hvítlauk í 2-3 mínútur. Setjið hrísgrjónin út í og hrærið í 1 mín. Bætið við hvítvíni, náið upp suðu, hrærið í ca 2 mín eða þar til vökvinn hefur gufað upp að mestu leyti.

Flytjið í eldfast mót, hrærið heitu grænmetissoðinu, sveppunum og kjúkling út í, hyljið með álpappír og bakið í ofni í 25 mín, hrærið við og við (passið ykkur samt að brenna ykkur ekki...).
Takið álpappírinn af og bakið í 5 mín í viðbót. Takið út, hrærið parmesan osti og graslauk/vorlauk saman við og voila, tilbúið :)

ATH ég ruglaðist smá þegar ég var að gera þetta og í staðinn fyrir að hella öllu soðinu á þá hellti ég því út í í smá skömmtum meðan ég var með þetta á pönnunni og lét það dragast inn í hrísgrjónin að mestu leyti, og setti svo í eldfasta mótið. Kemur örugglega út á það sama.

Svo eru til endalausar útgáfur af risotto, örugglega hægt að setja hvað sem er út í sem manni finnst gott. Hér eru t.d. fleiri hugmyndir http://www.taste.com.au/search-recipes/?q=risotto&publication=

Eftirréttur

Botn:
175 g hveiti og 100 g smjör mulið saman og 4-5 matskeiðar kalt vatn bætt við og þetta sett í kæli.

Fylling:
60 g smjör og 150 g síróp brætt saman og látið kólna.
3 egg, 3/4 dl sykur og 1 tsk vanilludropar hrært saman.
Þessu tvennu svo hrært saman.
100 gr pekanhnetur/valhnetur grófsaxaðar (fínt að skilja eftir nokkar hnetur til skrauts).

2/3 af botninum er sett í form og látin ná aðeins upp á hliðarnar, fyllingunni hellt ofan í og hnetunum dreift yfir. Restin af botninum raðað í fallegum strimlum yfir fyllinguna, strimlarnir penslaðir með mjólk eða eggi og hneturnar settar ofan á til skrauts.

Bakað við 180-200°C í 35-40 mín.

Þá ætti að koma út fíneríis kaka, vonandi smakkast vel :)

Wednesday, February 10, 2010

Fylltar kjúklingabringur


Humm ég skal prófa ;)

Búa til mauk með einhverju góðu til að fylla kjúklinginn, ég setti þetta í maukið:
Sveppi
rautt pestó
fetaost
ólífur
hvítlauk

búa til gat á kjúklingabringurnar og troða þessu inní, setja kjúklinginn í eldfast mót og restina af maukinu í kringum. Smyrja kjúklinginn með sterku sinnepi.

Setja svo inn í ofn í ca hálf tíma eða þangað til að kjúklingurinn er tilbúin.

Tuesday, February 9, 2010

Páskamission

Þegar ég var í Ástralíu voru svona rúsínubollur út um allt á páskunum, hot cross buns. Þær voru sko uppáhaldið mitt og ég var hámandi þetta í mig allan tímann meðan þetta var til í búðunum... Núna er missionið mitt þessa páska að prófa að baka svona, skal segja ykkur hvernig það fer!



Annars vil ég fara að sjá eitthvað af uppskriftum hingað inn... ;)

Wednesday, February 3, 2010

Kókoseftirréttur

Hæhæ!
Fyrsta færslan mín er eftirréttafærsla og þeir eru sko ekkert hollir. Hafdís fær að sjá um þá deild, amk í bili ;)
Fékk þennan eftirrétt í vinnunni í gær þegar ein konan átti afmæli, hann var svo góður að allir vildu fá uppskrift og hún sendi hana til okkar. Þetta var svona epla, kanil og súkkulaðirúsínu grunnur með kókosbollum ofan á og hitað í ofni, borið fram með vanilluís. Þetta var á pdf formi svo vonandi sést uppskriftin þótt ég setji hana bara sem mynd!


Svo ætla ég líka að setja inn uppáhalds súkkulaðikökuna mína, en sú uppskrift er frá mömmu Bjössa. Ég smakkaði hana einhvern tíma í sumar og fannst hún svo góð að ég fékk uppskriftina áður en ég kom með afmæliköku í vinnuna. Þetta er reyndar bara venjuleg skúffukaka en þá reyndar stækkaði ég aðeins uppskriftina, gerði þrjá kringlótta botna og bjó til svona þriggja hæða köku sem sló í gegn í vinnunni ;) Eina sem var að var að kremið var smá tricky, það skildist pínu í sundur hjá mér. Mamma sagði mér eitthvað trix við því sem ég er reyndar búin að gleyma, en þetta er eitthvað út af því að maður er að hita súkkulaði í kremið.


kakan:
100g kakó
5dl sjóðandi vatn
180gr smjör, mjúkt
130-150gr púðursykur
220g sykur
4 stór egg
1/2 tsk salt
1/2 tsk lyftiduft
2tsk matarsódi
400g hveiti2
tsk vanilludropar

Setjið kakó í skál, hellið sjóðandi vatni yfir og hrærið vel saman. Kælið. Hitið ofninn í 180°C. Smyrjið 40x35 cm stóra ofnskúffu með smjöri eða olíu. Hrærið smjör,púðursykur, sykur, egg og salt vel saman. Sigtið hveiti, lyftiduft og matarsódasaman. bætið hveitinu og kakóinu út í ásamt vanilludropunum og blandið saman (gæta þess að ofhræra ekki, blanda bara vel saman). Hellið deiginu í ofnskúffu og bakiðkökuna í 25-30 mín, eða þar til hún losnar frá bökkunum og hættir að hvissa í henni. kælið kökuna

krem :
150g suðusúkkulaði
180g smjör
250-300g flórsykur, sigtaður
1 tsk. vanilludropar
1,5-2 dl kókosmjöl

Bræðið varlega saman súkkulaði og smjör. Setjið í skál og hrærið flórsykur út í þar til það fer að þykkna. Bragðbætið með vanilludropum. Smyrjið kreminu yfir kökuna og stráið kókosmjöli yfir.

Monday, February 1, 2010

Test

Jess... nú getum við farið að hlaða inn uppskriftum ;) Bæði úr matarklúbbshittingum og líka ef okkur langar að deila einhverjum fleiri uppskriftum!!

go wild

valborg

Followers